Bandaríska matvæla og lyfjaeftirlitið (FDA) hefur lýst því yfir að kjöt og mjólkurafurðir einræktaðra dýra sé að öllum líkindum jafn öruggar til neyslu og afurðir dýra sem ræktuð eru með hefðbundnum hætti en yfirlýsingin er byggð á umfangsmiklum samanburðarrannsóknum stofnunarinnar.
„Eftir greiningu FDA á hundruð rannsóknaskýrslum og öðrum gögnum varðandi heilsufarlega þætti sem tengjast neyslu afurða einræktaðra dýra og afkvæma þeirra er niðurstaðan sú að jafn öruggt sé að neyta kjöt- og mjólkurafurða einræktaðra dýra og afkvæma þeirra og þeirra dýrafurða sem við neytum daglega,” segir Stephen Sundlof, formaður dýralækningadeildar stofnunarinnar. „Einræktun skapar enga sérstaka heilsufarslega hættu í dýrum fremur en aðrar tæknilegar frjóvganir sem nýttar eru í Bandaríkjunum í dag.
Yfirlýsing stofnunarinnar þykir gefa vísbendingu um að afurðir einræktaðra dýra verði brátt leyfðar á almennum markaði í Bandaríkjunum en stofnunin hefur lýst því yfir að hún muni taka formlega afstöðu til þess fyrir 2. apríl á næsta ári hvort farið verði í það ferli að heimila almenna sölu slíkra afurða. Verði það gert segir Sundlof að ferlið muni að öllum líkindum taka um hálft ár. Þá segir hann að ákvörðun hafi ekki verið tekin um það hvort slíkar vörur verði merktar sérstaklega verði sala þeirra heimiluð. Sjálfur telji hann þó ekki þörf á slíku verði heimild veitt á annað borð.
Sala á afurðum einræktaðra dýra hefur enn sem komið er ekki verið heimiluð neins staðar í heiminum og skoðanakannanir sýna að 60% Bandaríkjamanna eru mótfallnir einræktun á dýrum til matvælaframleiðslu.