Margir Danir gera allt of miklar kröfur til sjálfra sín og afleiðingin er streita og alls kyns kvillar af hennar völdum. Kemur þetta fram í nýrri könnun en höfundar hennar líkja streitunni við viðvarandi landfarsótt.
Streita er sá kvilli sem einkennir lífið nú á dögum og hún verður sífellt verri og verri. Er það niðurstaðan af Gallup-könnun, en 70% svarenda kváðust þjást af streitu í vinnunni.
Rúmlega tíundi hver kvaðst hafa verið frá vinnu dögum saman vegna streitu og fylgikvilla hennar. Vinnusálfræðingurinn Jørgen Møller Christiansen telur að 10–12% Dana þjáist af alvarlegri streitu og um 30% að því marki að kanna þurfi það nánar. "Í mörgum fyrirtækjum er komið til móts við fólk með því að kenna því að takast á við streituna en líklega væri árangursríkara að huga betur að aðstæðum á vinnustað. Mestu skiptir að krefjast ekki meira af fólki en það getur með góðu móti orðið við," segir Christiansen.