Hæfileiki okkar til að láta okkur dreyma dagdrauma um framtíðina er nátengdur hæfileika okkar til að rifja upp fortíðina og jafnvel byggður á honum, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem byggð er á heilaskönnun og greint er frá í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Við rannsóknina var fylgst með heilastarfsemi sjálfboðaliða sem létu sig annars vegar dreyma um framtíðina en rifjuðu hins vegar upp fortíðina. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni segja hana hafa leitt í ljós „óvænt og alger tengsl heilasvæðanna” sem virkjuð voru meðal samanburðarhópanna. „Niðurstöður okkar styrkja mjög þá hugmynd að mikil tengsl séu á milli minninga og hugsana um framtíðina og sýr það hvers vegna hugsanir um framtíðina eru hugsanlega ómögulegar án minninga,“ segir Szpunar, doktorsnemi í sálfræði við Washington-háskóla í St. Louis í Bandaríkjunum.
Þá þykja niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á það hvers vegna sjúklingar sem þjást af ýmsum tegundum minnisleysis geta ekki séð sig fyrir sér í einhvers konar ímynduðum framtíðaraðstæðum.