Samtök hljómplötuframleiðenda í Bandaríkjunum, sem hefur höfðað mál gegn rússnesku netversluninni AllofMP3.com ætlar að krefjast 150.000 Bandaríkjadala fyrir hvert lag sem selt var á tímabilinu júní og fram í október á þessu ári. Um er að ræða um 11 milljónir laga svo ljóst er að um nokkuð háa upphæð er að ræða eða um 1.650 milljarða Bandaríkjadala. Þetta kemur fram á vefsíðunni Zeropaid.
Ekki er vitað hve mikið rússneska fyrirtækið hefur hagnast á því að selja tónlist, en ólíklegt hlýtur að teljast að um þúsundir milljarða dala sé að ræða.
Fyrirtækið hefur svarað því til að hljómplötufyrirtækjum sé frjálst að höfða hvers kyns mál sem þeim sýnist. AllofMP3 sé hins vegar starfrækt í samræmi við rússnesk lög og hafi ekki bækistöðvar í New York þar sem málið var höfðað. Málsóknin hafi því enga þýðingu.