Þýskur fornleifafræðingur kveðst hafa fundið menjar um „fyrstu styrjöld mannkynsins“ í norðausturhluta Sýrlands. Um er að ræða leirkúlur sem notaðar hafi verið sem skotfæri í átökum er geisað hafi fyrir hartnær sex þúsund árum.
Þýska vikuritið Die Zeit greinir frá þessu á morgun.
„Hér er um að ræða elsta þekkta dæmið um stríðsárás,“ segir fornleifafræðingurinn, Clemens Reichel, sem stjórnar uppgreftri í borginni Hamoukar, á landamærunum að Írak, á vegum Háskólans í Chicago.
Hann segir að borgin, sem var víggirt með þriggja metra þykkum veggjum, hafi verið umsetin og að líkindum lögð í rúst af árásarmönnum frá suðurhluta Mesópótamíu.
„Þetta var engin smáorrusta sem hér var háð,“ segir Reichel. Tvö þúsund og þrjú hundruð leirkúlur, sem fundist hafi við uppgröftinn, séu til marks um að þarna hafi verið raunverulegur vígvöllur.