Streita eykur ekki líkurnar á því að fólk fái krabbamein, jafnvel ekki hjá þeim sem lifa við langvarandi streitu né þeim sem gang í gegn um mikið álag vegna skilnaðar, atvinnumissis eða annarra áfalla, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem framkvæmd var á vegum dönsku krabbameinssamtakanna Kræftens Bekæmpelse. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Postsen.
„Þegar rætt er við krabbameinssjúklinga er streita eitt af því sem hvað oftast er nefnt sem hugsanleg ástæða. Þeir kenna sjálfum sér um og því hvernig þeir hafa lifað lífi sínu. Það gerir niðurstöðurnar mikilvægar að þær losa sjúklinga við þessa sektarkennd og auðvelda þeim þannig að lifa með sjúkdómnum, “segir Christoffer Johansen, einn þeirra sem stóðu að rannsókninni.
Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í desemberhefti breska tímaritsins British Journal of Cancer en í rannsókninni var fylgst með 8,736 heilbrigðum Dönum í tíu ár. Á þeim tíma greindust 1.011 þeirra með krabbamein. Samanburður á streituvaldandi þáttum í lífi þeirra annars vegar og annarra í hópnum hins vegar bendir hins vegar ekki til þess að streita auki líkurnar á að fólk fái krabbamein.