Breskir veðurfræðingar spá því nú að árið 2007 verði það hlýjasta á jörðinni frá því að mælingar hófust, segja þeir að um 60% líkur séu á því að hiti við yfirborð jarðar verði jafn mikill eða meiri en árið 1998, sem var metár. Meðalhiti ársins 2006 var sá mesti á Bretlandseyjum síðan árið 1914 þegar slíkar mælingar hófust. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Það er meðal annar veðurfyrirbrigðið El Nino sem veldur því að vísindamenn spá þessu, liklegt þykir að El Nino muni þrýsta upp hitastigi jarðar á árinu. Styrkur fyrirbrigðisins er breytilegur milli ára, en stærð þess í Kyrrahafi nú miðað við árstíma þykir benda til þess að fyrirbrigðið muni valda hlýindum í ár.
Hin meginástæðan fyir spánni byggist á tölfræði, gróðurhúsaáhrif vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum hafa aukist ár frá ári undanfarin ár, og bendir ekkert til að áhrifin muni minnka í náinni framtíð.