Icelandair hefur verið útnefnt til alþjóðlegu Technology For Marketing (TFM) verðlaunanna fyrir best hannaða vefsvæði ársins (Best Website Design of the Year), en verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í London 6. febrúar. Icelandair er eina íslenska fyrirtækið sem hlotið hefur útnefningu til verðlaunanna, en keppt er í 12 flokkum. Icelandair keppir í sínum flokki við fyrirtækin Orange, Dabs, Odeon og Xchange Wales
Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn í London í tengslum við Technology for Marketing sýninguna sem fram fer í Olympia í London. TFM er stærsta og virtasta sýningin í Bretlandi á sviði markaðs-, sölu- og auglýsingatækni og hefur frá upphafi verið leiðandi á sínu sviði. TFM er jafnframt eina sýningin í Evrópu sem sérhæfir sig eingöngu á þessu sviði og mun hafa verið afar vel sótt af þeim sem stjórna markaðs og kynningarmálum.
Dómnefnd er skipuð aðilum úr viðskiptalífinu, sérfræðingum í markaðsmálum og frá háskólum. Meðal þeirra fyrirtækja sem hlutu útnefningu til verðlauna eru auk Icelandair: Big Brother Quiz, Britannia Building Society, Ford Retail, Hewlett Packard, Nike Run London, Nissan, Orange, Royal & SunAlliance, Tesco, The Times, The Tussauds Group, Vodafone, Bergens Tidende Newspaper og Yell.com en keppt er í 12 flokkum.