Íslenskur kafbátur hlýtur viðurkenningu

Íslenska hátæknifyrirtækið Hafmynd hefur hlotið viðurkenningu fyrir „byltingarkennda lausn í öryggismálum“ með sjálfstýrða smákafbátnum Gavia. Eitt virtasta rannsóknafyrirtæki heims, Frost & Sullivan í Bretlandi, veitir þessa viðurkenningu. Hafmynd hefur gengið frá sölu á kafbátnum til sjóhers nágrannaríkis, og til ástralska varnarmálaráðuneytisins.

Torfi Þórhallsson, framkvæmdastjóri Hafmyndar, segir að annar kaupendanna sem nýlega hefur verið gengið til samninga við vilji ekki að látið verði uppi að svo stöddu hver hann sé. Verðmæti samninganna tveggja er um hundrað milljónir króna.

Gavia kafbáturinn er meðal annars notaður til sprengjuleitar, rannsókna, eftirlits og mælinga neðansjávar á allt að 2.000 m dýpi. Áður hafa bandaríski flotinn og Háskólinn í British Colombia í Kanada og Rannsóknarráð Kanada fest kaup á bátnum.

Allur hugbúnaður fyrir bátinn er þróaður hérlendis, og einnig er báturinn að öllu leyti hannaður hér og settur saman. Stór hluti hans er smíðaður hér, en einnig í Danmörku og Hollandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert