Microsoft-hugbúnaður fyrir Ford-bíla kynntur til leiks

Bill Gates, stjórnarformaður Microsoft, sést hér með Mark Fields, forseta …
Bill Gates, stjórnarformaður Microsoft, sést hér með Mark Fields, forseta Ford í Ameríku, en saman kynntu þeir nýja hugbúnaðinn sem verður að finna í 12 Ford-tegundum. Reuters

Hugbúnaðarrisinn Microsoft og Ford-bílaframleiðandinn hafa svipt hulunni af hugbúnaði sem gerir ökumönnum kleift að raddstýra tónlist og símtölum á meðan þeir keyra. Kerfið, sem kallast „Sync“, var kynnt á bílasýningunni í Detroit í Bandaríkjunum. Það verður hægt að fá það í 12 Ford-gerðum á þessu ári.

Hugbúnaðurinn gerir ökumönnum kleift að segja á ensku, frönsku eða spænsku í hvern þeir vilja hringja í eða hvaða lag þá langar til þess að hlusta á úr MP3-tónlistarspilaranum sínum.

„Mögulegur markaður er gjörsamlega gríðarlegur,“ sagði Mark Fields, forseti Ford í Ameríku.

Sala á ýmiskonar raftækjum sem komið er fyrir í ökutækjum fer harðnandi á bandaríska bifreiðamarkaðinum.

Yfir 80% bandarískra heimila nota farsíma og yfir 60 milljónir stafrænna tónlistarspilara hafa verið seldir þar í landi, og Ford segir að sá markaður blómstri nú um mundir.

Samkomulagið er hluti af eilífri leit Microsoft, sem er stærsti hugbúnaðarframleiðandi heims, að nýjum mörkuðum sem ná út fyrir einka- og skrifstofutölvugeirann þar sem fyrirtækið ræður lögum og lofum.

Ford vonast hinsvegar til að tækninýjungin muni styrkja stöðu þeirra í Bandaríkjunum, en markaðshlutdeild þeirra á heimavelli hefur farið dvínandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert