Apple ætlar á farsímamarkað

Steve Jobs flytur ræðu sína á Macworld ráðstefnunni
Steve Jobs flytur ræðu sína á Macworld ráðstefnunni AP

Steve Jobs, forstjóri Apple, kynnti í dag nýjungar á Macworld ráðstefnunni í San Francisco í Bandaríkjunum. Meðal nýjunga sem kynntar voru er sími sem fyrirtækið hyggst gefa út, en Jobs kynnti tækið með þeim orðum að fjarskiptamarkaðurinn hefði verið enduruppgötvaður með tækinu, sem ber nafnið iPhone, og að honum væri ætlað að hlaupa yfir kynslóð svokallaðra snjallsíma sem nú séu á markaði, og erfitt sé að nota.

Þá tilkynnti Jobs einnig að nafni fyrirtækisins yrði breytt í Apple Inc. í stað Apple Computers Inc. í samræmi við auknar áherslur fyrirtækisins á almenn raftæki.

iPhone síminn sameinar kosti fartölvu og síma og er hægt að skoða myndbönd, hlusta á tónlist og vafra um netið, auk þess að hringja.

Helsti nýji kosturinn sem síminn er gæddur er stór snertiskjár, en fáir hnappar eru á símanum að öðru leyti. Sagði Jobs í ræðu sinni á ráðstefnunni að snertibúnaður skjásins sé mun nákvæmari en áður hefur þekkst og „viti” hvort þrýst hafi verið óvart á hnappa.

Hægt verður að tengja símann iTunes hugbúnaðinum og sýsla þannig með allt margmiðlunarefni sem geymt er á símanum auk tölvupósts og bókarmerkja. Jobs kynnti einnig til sögunnar tæki sem boðið verður til sölu á vefsíðu fyrirtækisins nk. þriðjudag, tæki sem ætlað er að brúa bilið milli sjónvarps og tölvu til að auðvelda fólki að horfa á kvikmyndir og sjónvarpsefni sem geymt er á tölvu á sjónvarpsskjá.

Mynd af væntanlegum iPhone frá Apple.
Mynd af væntanlegum iPhone frá Apple. Reuters
iPhone.
iPhone. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert