Alls létust 3.600 vegna loftmengunar í höfuðborg Írans, Teheran í einum mánuði, frá 23. október til 23. nóvember á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum. Segja þau ástand mengunarmála í borginni vera mjög alvarlegt og afleiðingarnar minni á fjölda sjálfsmorð.
Flestir þeirra sem létust vegna mengunar fengu hjartaáfall en mengun skýrir 80% hjartaáfalla í borginni. Loftmengun er á fáum stöðum í heiminum meiri en í Teheran. Alls má rekja 9.900 dauðsföll í Íran á einu ári til loftmengunar. Helsta skýringin er kolsýringsmengun frá bifreiðum en um 1,3 milljónir gamalla bifreiða eru í umferð í Teheran. Helmingur bifreiða í Íran standast ekki alþjóðlegar kröfur hvað varðar útblástur og eyða bifreiðar í landinu um það bil helmingi meira eldsneyti heldur en bifreiðar í Evrópu.
Ástandið er verst yfir vetrarmánuðina þegar miklar stillur og kuldi ráða ríkjum.
Er gamalt fólk og börn beðin um að halda sig heima við. Hefur ítrekað þurft að loka skólum til þess að halda börnum frá því að fara út úr húsi.