Allt stefnir í að Bretar verði þeir sem mestu fé eyða í vín allra Evrópubúa. Þótt Bretar drekki minna léttvín en Frakkar, Þjóðverjar og Ítalir þá munu þeir, ef fram fer sem horfir, eyða um fimm milljörðum punda eða sem svarar 700 milljörðum íslenskra króna í léttvínskaup árið 2010.
Þótt léttvínsdrykkja hafi stóraukist í Bretlandi undanfarin ár þá er nokkuð í að þeir taki fram úr löndum þar sem eldri hefð er fyrir víndrykkju. Meginástæðan mun vera sú að vín er mun dýrara í Bretlandi en í flestum öðrum ESB-löndum, en Bretar greiða að meðaltali rúm þrjú pund fyrir hverja flösku, eða um 420 krónur.
Það er einkum svokallað rósavín sem orðið hefur vinsælla, en það þykir einfalt og auðvelt til drykkjar, þótt vínsérfræðingar séu ekki allir jafn hrifnir af því. Vinsældir vínsins eru þó á kostnað bjórsins, þjóðardrykks Breta, en sala á honum hefur minnkað hægt og bítandi undanfarin ár.