Hin svokölluðu botnet, sem urðu þess valdandi að íslenskur tölvunotandi fékk óvænt 20 dollara rukkun inn á kreditkortið sitt í heimabankanum með því einu að forvitnast um leikjasíðu sem honum var send af ókunnugum aðila, eru gjarnan á 100 til 10 þúsund tölvum undir stjórn eins svikara. "Best er auðvitað að hafa uppi á viðkomandi aðila og stöðva hann," bendir Friðrik á. "Það hefur einstaka sinnum tekist en vandamálið er að þeir eru oft staðsettir í ríkjum þar sem erfitt er að nálgast þá, s.s. í Rússlandi, Úkraínu og Kína."
Botnetin eru einnig notuð til að senda út ruslpóst og slíku er hægt að verjast með þar til gerðum síum og jafnframt eru netin notuð til að senda út fleiri gerðir svikaforrita. Þessu er hægt að verjast með almennum öryggisráðstöfunum s.s. að hlaða ekki niður torkennilegum forritum sem berast í tölvupósti o.s.frv.
Sum forritin eru hönnuð til að stela lykilorðum eða kreditkortaupplýsingum og einnig aðgangsupplýsingum inn í tölvuleiki. Tekist hefur í nokkrum tilvikum að stela kreditkortaupplýsingum af tölvunotendum hérlendis.
"Það er um að ræða svo margvíslegar árásir að það er ekki til nein töfralausn gegn þeim," segir Friðrik