Stofnendur Skype ýta úr vör ókeypis netsjónvarpi

Tölvunotendur eiga að geta sótt Joost á ókeypis á netinu …
Tölvunotendur eiga að geta sótt Joost á ókeypis á netinu og horft á sjónvarpsþætti og kvikmyndir í bestu mögulegu myndgæðum í tölvunum sínum. AP

Milljarðamæringarnir Janus Friis og Niklas Zennström, stofnendur Skype-nettalsímabúnaðarins, hafa sett allt á fullt hvað varðar nýjasta verkefnið sitt, sem er ókeypis sjónvarp á netinu.

Sýn þeirra er sú að búa til sjónvarpskerfi þar sem notendur hvaðanæva um heiminn geta leitað eftir og horft á sjónvarpsþætti, kvikmyndir, tónlistarmyndbönd frá framleiðendum sjónvarpsefnis og annarra sem eiga réttinn á slíku efni. Tölvunotendur myndu síðan geta horft á efnið í bestu mögulegu myndgæðum.

Verkefnið, sem hingað til hefur gengið undir nafninu „Feneyjarverkefnið“, er í dag orðið opinbert um allan heim undir nafninu „Joost“.

Í viðtali við danska viðskiptablaðið Børsen segir Friis að forritið líkist vefpóstþjónustu Google (gmail) að því leyti að hægt verði að sækja forritið ókeypis. Þannig fái fólk aðgang að því að horfa á sjónvarp á netinu.

15.000 manns vítt og breitt um heiminn hafa nú fengið tækifæri til þess prófa þjónustuna og geta þeir nú boðið útvöldum vinum sínum og kunningjum til þess að gera slíkt hið sama.

Ýmsar prófanir hafa nú verið gerðar á forritinu og er næsta skref að koma Joost á almennan markað um allan heim. Hvenær það verður liggur hinsvegar ekki nákvæmlega fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert