Bandarískir vísindamenn segja að þeim sem eru bitrir og tortryggnir sé hættara en öðrum við að fá hjartasjúkdóma. Rannsókn á rúmlega 6.800 manns leiddi í ljós tengsl á milli tortryggni og bólgueinkenna, sem aftur auka hættuna á hjartasjúkdómum.
Frá þessu greinir fréttavefur BBC, en rannsóknin er birt í Archives of Internal Medicine.
Stöðug streita og þunglyndi reyndust einnig tengjast auknu magni af tilteknum bólgumerkjum í blóðinu. Rannsóknin bendir til að þeir sem eru bitrir og tortryggnir séu líklegri til óheilsusamlegri lífshátta en aðrir.
Rannsóknin var gerð við Háskólann í Michigan. Athuguð voru tengsl viðhorfa og þriggja bólgumerkja og reyndust biturð og tortryggni í garð annarra tengjast öllum merkjunum, og voru það sterkustu tengslin sem fram komu í rannsókninni.
Um hugsanleg orsakatengsl segjast vísindamennirnir helst hallast að því að biturt og tortryggið fólk hneigist fremur til óheilsusamlegra lífshátta á borð við offitu og reykinga, sem aftur auki hættu á hjartasjúkdómum.