Æluhljóð það versta í heimi

Þá mun það vera vísindalega sannað, að hljóðið sem heyrist þegar kastað er upp er það óþægilega sem fólk heyrir. Þá hefur komið í ljós, að konur eru viðkvæmari fyrir hljóðum en karlmenn.

Þetta er niðurstaða rannsóknar, sem Trevor Cox hefur gert á vegum Salford háskóla í Manchester á Englandi. Cox hefur rannsakað áhrif óhljóða í 30 ár að undanförnu hefur nærri hálf milljón manna tekið þátt í könnun á heimasíðu háskólans þar sem hægt er að hlusta á óþægileg hljóð.

„Ég hef vísindalegan áhuga á því hvernig fólk bregst við tilteknum hljóðum. Við erum forrituð þannig að við þolum illa óhugnanleg hljóð, sem æluhljóð, vegna þess að það er mikilvægt fyrir okkur að forðast eitraða hluti en í ljós kom að mörgum býður við hljóðum, sem eru síður en svo hræðileg," er haft eftir Cox á heimasíðu skólans.

Í ljós kom, konur hafa minna þol gegn óþægilegum hljóðum en karlmenn og í könnuninni kom í ljós að konur gáfu 25 af 35 óhljóðum, sem fólk var látið hlusta á, verri einkunn en karlmenn. Undantekning var barnsgrátur, sem körlum þótti mun óþægilegri en konum.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós, að fólki þótti ákveðin hljóð óþægilegri ef myndir fylgdu með. Þannig þótti hljóð í tannbor mun óþægilegra ef mynd af bornum sást þegar hljóðið heyrðist en ef hljóðið heyrðist skýringalaust.

Tíu óþægilegustu hljóðin að mati þátttakenda í rannsókninni voru eftirfarandi:

  1. Karlmaður kastar upp
  2. Ískur í hljóðnema
  3. Barnagrátur (mörg börn)
  4. Marr í togvindu
  5. Marr í vegasalti
  6. Spilað falskt á fiðlu
  7. Hljóð í „fretblöðru"
  8. Barnsgrátur (eitt barn)
  9. Rifrildi
  10. Suð í háspennulínum

Óhljóðasíðan á netinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert