Bandaríkjaher sýnir hitageislabyssu

Geislabyssan á þaki herbíls.
Geislabyssan á þaki herbíls. AP

Bandaríski herinn sýndi í gær í fyrsta sinn opinberlega nýtt hitageislavopn sem herinn segir vera byltingarkennt. Því má beita til að hefta för óvina eða leysa upp múg líkt og gert er með gúmmíkúlum.

Byssan nefnist „Silent Guardian“ og sendir frá sér ósýnilegan orkugeisla sem veldur skyndilegri brunatilfinningu hjá þeim sem verður fyrir honum en í raun veldur geislinn engum skaða. Hægt er að skjóta geislanum allt að hálfum kílómetra, eða mun lengra en gúmmíkúlum.

Herinn gerir ráð fyrir að taka geislabyssuna í notkun innan þriggja ára.

Geislinn sem byssan sendir frá sér fer í gegnum klæði en ekki veggi. Hann hitar húðina á þeim sem fyrir verður í allt að 50 gráður.

Fréttamenn sem fengu að skoða byssuna í herstöð í Bandaríkjunum buðust til að reyna hana á eigin skinni og sögðu tilfinninguna ekki ósvipaða því að finna fyrir mjög heitum ofni og að maður hörfi ósjálfrátt undan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka