Litlar hindranir fyrir öfgamenn að koma skoðunum sínum á framfæri

Gordon Brown á ráðstefnunni í Davos
Gordon Brown á ráðstefnunni í Davos Reuters

Forkólfar í viðskiptalífinu í heiminum auk stjórnmálaleiðtoga ræddu málefni Netsins á heimsviðskiptaráðstefnunni sem nú stendur yfir í Davos í Sviss. Þar vöruðu menn við því hve lítil afskipti stjórnvöld hefðu af því mikla flæði sem færi um Netið. Því væru litlar hindranir fyrir því að öfgasinnar kæmu skoðunum sínum á framfæri.

Tími reykfylltra bakherbergja liðinn

Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, fjölmiðlaeigandinn Rupert Murdoch og utanríkisráðherra Ísraels, Tzipi Livni, tóku undir það viðhorf að Netbyltingin hafði skapað möguleika sem ekki ættu sér neitt fordæmi bæði fyrir stjórnmálamenn og leiðtoga í viðskiptalífinu. Eða eins og Brown orðaði það: „Tími reykfylltra bakherberja er liðinn."

Brown sagði að ekki væri hægt að ganga frá stórum málum á bak við luktar dyr á tímum upplýsingahraðbrautarinnar. Nú væri sá tími runninn upp að pólitískar ákvarðanir væru ekki teknar án þess að mun stærri hópur kæmi að þeim en áður.

Stjórnarformaður News Corp, Rubert Murdoch, tók í svipaðan streng: „Allt er opið," sagði Murdoch og bætti við að ekki væri lengur möguleiki að halda neinu leyndu. Þremenningarnir, Brown, Murdoch og Livni, tóku allir þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni í morgun. Þar fögnuðu þeir allir það gagnsæi sem nú ríkti en um leið vöruðu þeir við því að óheftur aðgangur almennings að umræðu gæfi öfgamönnum færi á að dreifa skoðunum sínum.

Livni sagði að þetta væri ekki bara falleg saga um fólk og stjórnmál. Aukið flæði upplýsinga væri af hinu góða en um leið væri viðbúið að öfgamönnum vaxi fiskur um hrygg í heiminum.

Brown benti á að það væru yfir sex þúsund vefsíður á Netinu sem væru tengdar Al-Qaeda. Gagnrýndi hann stjórnvöld til þess að beita sér ekki frekar gegn dreifingu efnis öfgasamtaka á Netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka