Margar tölvu- og raftækjaverslanir í Bandaríkjunum höfðu opið fram yfir miðnætti í nótt í tilefni þess að stýrikerfið Windows Vista var formlega gefið út í dag. Fáir höfðu þó fyrir því að bíða í röð eftir stýrikerfinu þrátt fyrir að um sex ár séu síðan síðasta útgáfa stýrikerfisins var gefin út. Sala á stýrikerfinu hófst á Íslandi í morgun, og í um 70 öðrum löndum víða um heim.
Samstarfsaðilar Microsoft á Íslandi hafa kynnt almenningi stýrikerfið í tölvuverslunum undanfarna daga, og verður kynningum haldið áfram í vikunni. Guðrún Jörgensen, markaðsstjóri Microsoft á Íslandi, segir að ekki sé vanþörf á að kynna stýrikerfið þar sem það sé mikið breytt frá fyrri útgáfum bæði hvað varðar útlit og virkni, og miklu bætt við. Skrifstofupakkinn Office 2007 kemur jafnframt út í dag og hefur verið kynntur samhliða stýrikerfinu.
Að sögn Guðrúnar verður nokkurra mánaða bið á því að íslenskuð útgáfa Vista komi út, verið er að vinna í þýðingu og vonast Guðrún til að hægt verði að gefa hana út með vorinu. Íslensk útgáfa Windows XP hefur verið í boði um nokkurt skeið og má sækja endurgjaldslaust á vefsíðum Microsoft.
Það kemur mönnum þó lítt á óvart að ekki hafi verið beðið í röðum eftir stýrikerfinu, enda er almennt litið á útgáfuna sem rökrétta þróun heldur en byltingu. Viðskiptavinir Microsoft geta nú í fyrsta sinn keypt stýrikerfið yfir netið, Steve Ballmer, forstjóri Microsoft hefur þó sagt að flestir muni ekki skipta út stýrikerfinu fyrr en þeir fái sér nýja tölvu.