Windows Vista í verslanir í dag

Margar tölvu- og raftækjaverslanir í Bandaríkjunum höfðu opið fram yfir miðnætti í nótt í tilefni þess að stýrikerfið Windows Vista var formlega gefið út í dag. Fáir höfðu þó fyrir því að bíða í röð eftir stýrikerfinu þrátt fyrir að um sex ár séu síðan síðasta útgáfa stýrikerfisins var gefin út. Sala á stýrikerfinu hófst á Íslandi í morgun, og í um 70 öðrum löndum víða um heim.

Samstarfsaðilar Microsoft á Íslandi hafa kynnt almenningi stýrikerfið í tölvuverslunum undanfarna daga, og verður kynningum haldið áfram í vikunni. Guðrún Jörgensen, markaðsstjóri Microsoft á Íslandi, segir að ekki sé vanþörf á að kynna stýrikerfið þar sem það sé mikið breytt frá fyrri útgáfum bæði hvað varðar útlit og virkni, og miklu bætt við. Skrifstofupakkinn Office 2007 kemur jafnframt út í dag og hefur verið kynntur samhliða stýrikerfinu.

Að sögn Guðrúnar verður nokkurra mánaða bið á því að íslenskuð útgáfa Vista komi út, verið er að vinna í þýðingu og vonast Guðrún til að hægt verði að gefa hana út með vorinu. Íslensk útgáfa Windows XP hefur verið í boði um nokkurt skeið og má sækja endurgjaldslaust á vefsíðum Microsoft.

Það kemur mönnum þó lítt á óvart að ekki hafi verið beðið í röðum eftir stýrikerfinu, enda er almennt litið á útgáfuna sem rökrétta þróun heldur en byltingu. Viðskiptavinir Microsoft geta nú í fyrsta sinn keypt stýrikerfið yfir netið, Steve Ballmer, forstjóri Microsoft hefur þó sagt að flestir muni ekki skipta út stýrikerfinu fyrr en þeir fái sér nýja tölvu.

Hér gefur að líta mynd af skjáborði Windows Vista stýrikerfisins.
Hér gefur að líta mynd af skjáborði Windows Vista stýrikerfisins. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka