Meðal markmiða fjarskiptaáætlunar 2005 til 2010 er að sjónvarps- og útvarpsdagskrá RÚV verði dreift með stafrænum hætti um gervihnött til sjómanna á miðum við landið og strjálbýlla svæða landsins. Skrifað var í dag undir samning við Telenor á grundvelli samningskaupaferlis um að annast verkefnið. Þrjú tilboð bárust öll frá erlendum aðilum.
Stjórn fjarskiptasjóðs leitaði samstarfs við Ríkisútvarpið um verkefnið og óskað var eftir aðstoð Ríkiskaupa við undirbúning og framkvæmd samningskaupaferilsins. Verkið var ekki útboðsskylt þar sem það fellur ekki undir lög um opinber innkaup eða innkaupatilskipanir. Ákveðið var því að viðhafa aðferðafræði samningskaupa til að tryggja að þjónustan fengist af sem mestum gæðum og fyrir sem hagstæðast verð. Valdir voru í september síðastliðnum 9 aðilar til þátttöku og gefinn frestur fram í nóvember til að senda tilboð. Tilboð bárust frá Eutelsat, Intelsat og Telenor. Áætlaður heildarkostnaður við verkefnið er kringum 150 milljónir króna á næstu þremur árum.
Neytendum á afmörkuðum svæðum stendur þegar til boða stafrænt sjónvarp sem dreift er með ýmsum hætti með þræði eða þráðlaust. Nauðsynlegt þykir að sjófarendur og íbúar strjálbýlli svæða sem ekki njóta í dag fullnægjandi þjónustu eigi möguleika á að ná stafrænt í gegnum gervihnött sjónvarpsdagskrá RÚV og dagskrá Rásar 1 og Rásar 2.
Stefnt er að því að útsendingar hefjist í byrjun apríl næst komandi og þá á almenningur í hinum dreifðu byggðum og sjómenn að geta farið að nýta sér þjónustuna, samkvæmt tilkynningu.