Utanríkisráðherra telur brýnt að taka þátt í umræðu um loftslagsmál

Valgerður Sverrisdóttir.
Valgerður Sverrisdóttir.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, telur það brýnt að Íslendingar taki áfram virkan þátt í samningaviðræðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á sviði loftslagsmála. Bæði til að þrýsta á um auknar aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og til að tryggja sérstöðu Íslendinga til áframhaldandi nýtingar á okkar hreinu og endurnýjanlegu orkugjöfum, að því er fram kemur í pistli á vef hennar.

„Nú eru að hefjast nýjar samningaviðræður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Annars vegar þarf að ákvarða næstu aðgerðir aðildarríkja Kýótó-bókunarinnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir árið 2012. Hins vegar eru það viðræður við þau ríki sem ekki hafa tekist á hendur lagalegar skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúslofttegunda. Á meðal þeirra eru Bandaríkin og ýmis stór þróunarríki, en saman eru þau ábyrg fyrir stórum hluta af losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum."

Valgerður gerir nýja skýrslu Alþjóðlega vísindaráðsins um loftslagsbreytingar (IPCC) að umtalsefni í pistlinum en hún segir hana bætast í mergð skýrsla sem kemst að þessari sömu niðurstöðu.

„Þar kemur skýrt fram að fullvíst megi telja að hitun andrúmsloftsins á okkar dögum sé mannkyninu að mestu leyti að kenna, en einungis að litlu leyti vegna kerfisbundinna langtímasveiflna.

Við Íslendingar förum ekki varhluta af þessum breytingum og ekki þarf vísindaþekkingu til að merkja að veðurfar hefur farið hlýnandi á undanförnum árum. Jöklar hér heima hafa hopað og við upplifum fleiri og fleiri hlýindiskafla um hávetur. Rauð jól eru orðin algengari en þau hvítu og ýmis bæjarfélög hafa farið þá leið að kaupa sérstök tæki til framleiðslu á snjó til að auðvelda skíðaiðkun. Öðruvísi mér áður brá.

Í skýrslu Alþjóðlega vísindaráðsins er reyndar talið ólíklegt að Golfstraumurinn, sem okkur er svo mikilvægur, muni breytast mikið að völdum loftslagsbreytinga, en hins vegar er spáð auknum meðalhita hér á landi á þessari öld.

Aukinn meðalhiti á norðurslóðum mun vissulega hafa í för með sér ný tækifæri fyrir okkur sem búum á norðurhveli jarðar. Má þar nefna opnun nýrra siglingaleiða á norðurhöfum - til Norður Kanada og meðfram norðurströnd Rússlands til Kyrrahafs. Þetta mun stytta siglingaleiðir og skapa ný og spennandi tækifæri á Íslandi fyrir farsiglingar, umskipun og þjónustu við kaupskip. Á mínum fyrstu vikum sem utanríkisráðherra setti ég á fót starfshóp til að kanna þessa þróun nánar og verður alþjóðleg ráðstefna um framtíð siglinga á norðurslóðum með þátttöku virtra alþjóðlegra sérfræðinga haldin á Akureyri í lok mars n.k.," segir í pistli Valgerðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert