Eins og eflaust einhverjir eiga til, rýkur Páll Jakobsson stundum upp um miðjar nætur til að skoða sms-in sín. Þessi skilaboð eru þó af öðrum toga en flestra því þau koma frá gervitunglum, sem nema geislun frá gammablossum og senda þannig skilaboð til jarðar. Þegar svo ber undir er næsta skref hjá Páli að fara inn á heimasíður stjörnusjónauka og fylla út beiðni um að beina þeim að blossunum.
"Ég hef verið hugfanginn af himingeimnum frá því ég man eftir mér," segir Páll, sem lauk doktorsprófi í stjarneðlisfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2005. Í sama streng taka Árdís Elíasdóttir, sem lýkur doktorsprófi í faginu frá sama skóla á næsta ári, og Guðlaugur Jóhannesson stjarneðlisfræðingur, sem lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands 2006. Þeir Páll og Guðlaugur einbeita sér að gammablossum, en Árdís að þyngdarlinsum. Orðin sjálf segja leikmönnum fátt, eða eins og Guðlaugur segir: "Ég upplifi það oftar, að þegar ég segist vera stjarneðlisfræðingur tekur fólk þann kostinn að skipta um umræðuefni." Í viðtölum í Morgunblaðinu í dag má verða margs vísari um bæði fyrirbærin, gammablossa og þyngdarlinsur.