Ríkið setur 225 milljónir í vetnisverkefni

Iðnaðarráðuneytið hefur samið við Vistorku um stuðning sem tryggja munu samfellu í vetnisverkefnum á Íslandi. Stefnt er að því að verja 225 milljónum króna á þremur árum. Verður 25 milljónum króna af fjárlögum þessa árs til ráðstöfunar. Seinni greiðslur verða til úthlutunar á árunum 2008 og 2009 samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis. Á móti koma framlög frá erlendum samstarfsaðilum, innlendum orkufyrirtækjum og ýmsum öðrum aðilum, að því er segir í tilkynningu.

Jafnframt er fyrirhugað að bera niðurstöður rannsókna á vetnisbílum saman við hliðstæðar rannsóknir á öðrum vistvænum bílum.

Hið nýja verkefni kallast SMART-H2 (Sustainable Marine and Road Transport, Hydrogen in Iceland). Markmið þess er m.a. að koma af stað rekstri á 20-30 vetnisbílum og setja vetnisljósavél um borð í ferðamannabát á sjó. Þetta var kynnt á blaðamannafundi iðnaðarráðherra, Jóns Sigurðssonar í morgun.

Út er komin áfangaskýrsla Vettvangs um vistvænt eldsneyti. Megintillaga í skýrslunni lýtur að því að endurskoða reglur um opinber gjöld af ökutækjum til að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum.

„Vettvangur um vistvænt eldsneyti er verkefni á vegum Orkustofnunar og er viðfangsefni hans hvað eina er lýtur að því að gera Íslendinga síður háða innfluttu eldsneyti en nú er og nýta innlenda orku í staðinn. Að stjórn Vettvangsins koma sex ráðuneyti: iðnaðarráðuneyti, utanríkisráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, umhverfisráðuneyti, samgönguráðuneyti og fjármálaráðuneyti, að því er segir í tilkynningu.

Meginmarkmið þessara tveggja verkefna er að leita leiða til að nýta innlenda orkugjafa í stað innflutts jarðefnaeldsneytis í samgöngum landsmanna og draga um leið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Keppt er að því að fá niðurstöður um það hvers konar vistvæn tækni henti best í samgöngutækjum á Íslandi. Jafnframt eiga verkefnin að afla stjórnvöldum þekkingar og aðstoða þau við stefnumótun og æskilega forystu á þessu sviði, samkvæmt fréttatilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu.

Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi iðnaðarráðherra reynsluekur vetnisbíl
Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi iðnaðarráðherra reynsluekur vetnisbíl mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka