Þýskri lögreglu meinað að leita upplýsinga með hjálp tölvuveira

Þýska saksóknaraembættið vill meina að leit á tölvum um netið …
Þýska saksóknaraembættið vill meina að leit á tölvum um netið sé sama eðlis og símhleranir. Reuters

Hæstiréttur í Karlsruhe í Þýskalandi úrskurðaði í dag að lögregla mætti ekki nota hugbúnað til að leita á tölvum þeirra sem grunaðir eru um glæpi, án vitneskju þeirra. Lögregluyfirvöld hafa sóst eftir leyfi til að nota svokallaða „trójuhesta” til að afla upplýsing á tölvum grunaðra yfir netið.

Úrskurðaði rétturinn að lögregla mætti ekki framkvæma slíkar leitir án vitneskju tölvueigenda og að lagabreytingar þurfi til svo slíkt verði leyft. Lögregla má þó líkt og hingað til leita á hörðum diskum tölva í fangelsum, og með því að gera tölvur upptækar.

Wolfgang Schaeuble, innanríkisráðherra Þjóðverja segir að möguleikinn á því að framkvæma leitir á tölvum án vitneskju þeirra grunuðu sé nauðsynlegur til að rannsaka glæpi og hryðjuverkastarfsemi, og hefur hann hvatt þýsku stjórnina til að beita sér fyrir því að lögunum verði breytt.

Þýska ríkissaksóknaraembættið hafði áður sagt að leit með hjálp tölvuveira væri réttlætanleg á sama hátt og símhleranir og önnur hlerunartækni.

Embættið fagnaði þó úrskurði hæstaréttarins þar sem að óvissu um það hversu langt megi ganga hafi nú verið eytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert