Jobs vill afnema afritunarvarnir

Ljóst er að afnám afritunarvarna myndi leysa ýmis vandamál
Ljóst er að afnám afritunarvarna myndi leysa ýmis vandamál AP

Steve Jobs, forstjóri Apple, hvatti í dag helstu hljómplötuútgefendur heims til að hætta að nota stafrænar afritunarvarnir á þeirri tónlist sem seld er og sagði að slík breytingin yrði bæði seljendum og neytendum til hagsbóta. Jobs segir slíkar varnir ekki hafa komið í veg fyrir leyfislausa fjölföldun á tónlist en standi hins vegar því fyrir þrifum að allir geti notað netverslanir sem selja tónlist.

Apple hefur verið gagnrýnt fyrir það að ekki sé hægt að nota tónlist sem seld er um iTunes netverslunina á öðrum spilurum en þeim sem Apple framleiðir, og að notendur sem kaupi iPod spilara neyðist til að halda áfram að versla slík tæki vilji þeir eiga tónlistina sem þeir hafa keypt með löglegum hætti. Mál hafa verið höfðuð gegn Apple vegna þessa m.a. í Noregi.

Torgeir Waterhouse, helsti ráðgjafi norska neytendaráðsins segist fagna því að Apple skuli taka vandamálið alvarlega og takast á við það með þessum hætti.

Ef notkun afritunarvarna verður hætt munu allir notendur svokallaðra mp3-spilara geta keypt tónlist hvar sem er og notað á öllum tækjum óháð því hverrar gerðar tækið er. Hins vegar geta þá kaupendur vandræðalaust afritað tónlistina og gefið öðrum, brennt geisladiska, eða yfirleitt gert það sem þeim sýnist við tónlistina.

Ýmsar takmarkanir eru nú á því hvað hægt er að gera við tónlist sem keypt hefur verið yfir netið, t.d. á hvaða tölvum og hve mörgum má spila tónlistina, og hvers konar spilurum hægt er að nota hana. Tónlist sem seld er um Apple er t.d. ekki hægt að nota nema á iPod-spilurum, og aðrar netverslanir selja svo yfirleitt aðeins tónlist sem varin er með afritunarvörn frá Microsoft, og er þá aðeins hægt að spila tónlistina á tækjum sem búin eru hugbúnaði til að afkóða þá vörn, undir leyfi frá Microsoft.

Jobs segir að með því að afnema afritunarvarnir séu allar þessar takmarkanir úr sögunni, og að Apple myndi taka slíkri ákvörðun fagnandi og þar með hefja að nota kerfi sem allir gætu notað. Jobs hvatti því sérstaklega, í yfirlýsingu sem birt hefur verið á vefsíðu Apple, fjögur stærstu hljómplötufyrirtækin , Universal, EMI, Sony BMG og Warner til að hætta að nota varnirnar.

Ekkert svar hefur borist frá útgáfurisunum enn, en líklegt hlýtur að teljast að þeir verði tregir til að selja tónlist án nokkurra kvaða. Um 70% allrar tónlistar sem seld er um netið í heiminum hins vegar er seld í iTunes versluninni og þykir því ljóst að tónlistariðnaðurinn verði að íhuga tillögur Jobs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert