EMI íhugar að hætta notkun afritunarvarna

Reuters

Bandaríska blaðið Wall Street Journal segir frá því í dag að útgáfufyrirtækið EMI íhugi nú að selja alla sína tónlist á mp3 þjöppunarsniðinu, án allra afritunarvarna. Steve Jobs, forstjóri Apple, hvatti til þess fyrr í vikunni að útgefendur hættu að selja tónlist með slíkum vörnum, en talið er að EMI hyggi heldur á frekari samkeppni við Apple en samstarf.

Wall Street Journal hefur eftir aðilum sem unnið hafa að málinu hjá EMI að fyrirtækið hafi leitað til netverslanna á borð við RealNetworks, eMusic.com, MusicNet og MTV og leitað eftir tilboðum í greiðslur fyrir sölu á tónlist á mp3-sniðinu. Ákvörðun verði svo tekin á grundvelli tilboðanna í kjölfarið.

EMI er þriðja stærsta útgáfufyrirtæki heims og gefur út tónlist sveita á borð við Rolling Stones, Coldplay, Beastie Boys og Bítlana.

Um 70% allrar tónlistarsölu á netinu fer nú fram um netverslun Apple, iTunes, en aðeins eigendur iPod spilara geta nýtt sér þá þjónustu.

Jobs sagði í vikunni að afritunarvarnir hefðu ekki komið í veg fyrir ólöglega fjölföldun á tónlist en að afnám varnanna myndi þýða að eigendur tækja yrðu ekki bundnir stökum netverslunum og söluaðilar gætu þá selt hverjum sem er tónlist sína.

Forsvarsmenn EMI hafa ekkert viljað segja opinberlega um málið, og segja aðeins u m getgátur að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert