Richard Branson heitir peningaverðlaunum þeim sem stöðvar gróðurhúsaáhrif

Branson og Gore er umhugað um framtíð jarðar
Branson og Gore er umhugað um framtíð jarðar Reuters

Richard Branson, forstjóri Virgin, hefur heitið þeim 25 milljónum Bandaríkjadala sem finnur leið til að losna við a.m.k. milljarð tonna af koltvíoxíði úr andrúmsloftinu. Branson kynnti keppnina ásamt Al Gore, fyrrum varaforseta Bandaríkjanna í dag og sagði jörðina ekki geta beðið í 60 ár eftir lausnum.

„Ég vil að börnin mín og barnabörn eigi framtíð. Klukkan tifar” sagði Branson og jafnframt að hann teldi að peningaverðlaun væri besta leiðin til að hvetja til þess að lausn finnist á vandanum.

James Hansen, yfirmaður geimrannsóknarstofnunar NASA og sérfræðingur um loftslagsbreytingar, hefur umsjón með verkefninu en auk hans kemur hópur manna að verkefninu, sem mun dæma innsendar lausnir, James Lovelock, höfundur Gaia kenningarinnar, breski umhverfisverndarsinninn Crispin Tickell og spendýrafræðingurinn Tim Flannery.

Aðferðir til að ná koltvísýringi úr andrúmslofti og vinna hann eru taldar lykilatriði í að leysa þrautina. Vísindamenn hafa þegar kannað hugmyndir um að vinna gróðurhúsalofttegundir úr andrúmsloftinu og geyma í olíu og gaslindum eða dæla á sjávarbotn. Kostnaður við að vinna koltvísýring úr andrúmslofti yrði hins vegar svo orkufrekur að það þykir vart svara kostnaði auk þess sem óttast er að slíkar geymslur gætu farið að leka með tímanum.

Branson rekur bæði flugfélag og lestir undir merkjum Virgin, hann hét því á síðasta ári að veita þremur milljörðum Bandaríkjadala í umhverfisverkefni, sem greiðist með hagnaði þeirra fyrirtækja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert