Einhverfa er algengari meðal bandarískra barna en talið hefur verið, og hefur eitt af hverjum 150 börnum þar einhverfueinkenni, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á vegum Farsóttar- og forvarnamiðstöðvar Bandaríkjanna.
Rannsóknin er byggð á víðtækustu gögnum sem aflað hefur verið til þessa um átta ára börn í 20 ríkjum Bandaríkjanna. Ákveðið var að rannsaka átta ára börn því að fyrri rannsóknir hafa sýnt að á þeim aldri hefur greining á einhverfu oftast verið komin fram.
Framkvæmdastjóri miðstöðvarinnar segir að ekki liggi ljóst fyrir hvort þetta merki að tilfellum hafi farið fjölgandi, eða sé til marks um bætta greiningartækni.