„Geimkartöflur“ nýjasta æðið í Sjanghæ

Venjulegar íslenskar kartöflur.
Venjulegar íslenskar kartöflur. mbl.is

Kínverskar „geimkartöflur“ njóta nú gríðarlegra vinsælda í Sjanghæ í Kína, en borgin er þekkt fyrir að vera með puttann á púlsinum þegar kemur að því hvað þyki vera samkvæmt nýjustu tísku.

Kartöflurnar sem um ræðir þykja nokkuð sætar á bragðið og þær eru fjólubláar á lit. Þær kallast hinu frumlega nafni „Fjólublátt brönugras þrír“. Þær voru ræktaðar úr sæðum sem stökkbreyttust er þau voru um borð í kínverskri geimferju. Frá þessu greinir dagblað í Sjanghæ í dag.

Ræktandinn, Haikou Purple Orchid Co. Ltd., kynnir nú kartöflurnar sem öðruvísi val þegar kemur að mat. Veitingastaðir í borginni bjóða nú upp á kartöflurnar í tengslum við Valentínusardaginn og hægt er að fá þær djúpsteiktar, í salati, eftirréttum eða jafnvel í ísdrykkjum.

Geimferðarstofnun Kína heldur því fram að hún hafi framleitt fjöldann allan af stökkbreyttum ávöxtum og grænmeti, með því að láta geimgeisla leika um sæðið auk þess sem þrýstingurinn í geimferjunni og þyngdarleysi hafi haft áhrif á það.

Landbúnaðarsérfræðingar í Kína segja að plöntur sem eru ræktaður úr þesskonar sæði séu harðgerari, næringarríkari og gefi meira af sér. Margir vísindamenn hafa hinsvegar haldið því fram að hægt sé að ná fram sömu áhrifum í venjulegum rannsóknarstofum á jörðu niðri.

Sjanghæ í Kína.
Sjanghæ í Kína. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert