Það eru komin 11 ár síðan finnski farsímaframleiðandinn Nokia kynnti fyrsta Communicator símann til leiks. Tölvusíminn var strax vel tekið og það voru margir sem voru fljótir að eignast gripinn. Síðan þá hefur síminn verið reglulega endurnýjaður. Nú hefur Nokia hinsvegar gert umtalsverðar breytingar á símanum og hefur m.a. skipt út stýrikerfinu. Nokia E90 hefur verið kynntur til leiks á 3GSM farsímaráðstefnunni í Barcelona á Spáni.
Nokia E90 tilheyrir E-seríunni svokölluðu. Síminn er þróaðasti viðskiptasíminn frá Nokia hingað til. Hann býður upp á WLAN og HSDPA nettengingar, skjárinn er stór og sýnir 16 milljónir lita og í honum er Nokia S60 netvafri sem býður notendum að skoða vefsíður í fullri breidd.
Þá er búið að samræma GPS-staðsetningarbúnað við Nokia Maps forrit sem býður notendum upp á leiðarkerfi og þá er hægt að finna þjónustu sem er nálæg farsímanotandanum. Þá þykir margmiðlunarbúnaðurinn í símanum vera mun betri en í eldri viðskiptasímum en þar má m.a. nefna FM-útvarp, MP3-tónlistarspilara og tvær myndavélar, þ.á.m. 3,2ja megapixla myndavél með sjálfvirkum fókus og VGA-myndavél sem er hugsuð fyrir myndfundi.