Farsímasjónvarp virðist vera að ná fótfestu - og þó

Kallasvuo kynnir N77.
Kallasvuo kynnir N77. AP

Farsímasjónvarp er miðpunktur 3GSM-ráðstefnunnar í Barcelona, en í mörg ár hefur slíkt sjónvarp verið lítið annað en orðagjálfur. Mismunandi tæknistaðlar flækja þó enn málin.

En farsímafélög, -framleiðendur og efnisveitur leggja áherslu á farsímasjónvarp sem nýja tekjulind þar sem enginn vöxtur er lengur í tekjum af símtölum og áskrifendum í Evrópu fer orðið lítið fjölgandi.

Að þessu sinni ber svo við, að farsímaeigendum standa í raun og veru til boða sjónvarpsútsendingar í sífellt fleiri löndum, bæði í Evrópu og Asíu. Útsendingar sem nást í farsíma verða væntanlega í boði í Bandaríkjunum á næstunni.

Þótt farsímasjónvarpsútsendingum og sjónvarpssímum hafi farið fjölgandi hefur „enginn náð að taka markaðinn með áhlaupi“, sagði Nick Lane, greinir hjá fyrirtækinu Informa Telecoms & Media. Til að svo geti orðið þarf að fá skorið úr um hversu lífvænlegir hinir ýmsu verkvangar, hugbúnaður og viðskiptalíkön séu.

Olli-Pekka Kallasvuo, yfirframkvæmdastjóri Nokia, notaði tækifærið í setningarræðu sinni og kynnti Nokia N77 símann, sem er margmiðlunartæki með 2,4 tommu skjá sem hann sagði að myndi ryða brautina fyrir farsímasjónvarp byggt á svokallaðri DVB-H tækni (digital video broadcast-handheld). Sífellt fleiri fjarskiptafyrirtæki, sem nú nota GSM tækni, eru farin að snúa sér að þessum verkvangi.

Kallasvuo spáði því að DVB-H markaðurinn myndi ná allt að tíu milljónum seldra síma undir lok næsta árs og 20 milljónum árið 2009.

En þótt DVB-H hafi náð nokkru forskoti hafa fleiri staðlar látið að sér kveða, þar á meðal einn frá Qualcomm, sem kveðst hafa gengið frá samningum við tvö stærstu farsímafélögin í Bandaríkjunum um að þau noti sinn verkvang fyrir farsímasjónvarpssendingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert