Stofnandi Wikipedia opnar þrjú net-tímarit

Alfræðiorðabókin Wikipedia er geysivinsæl
Alfræðiorðabókin Wikipedia er geysivinsæl wikipedia.org

Fyrirtækið Wikia, sem er í eigu Jimmy Wales, eins stofnanda alfræðiorðabókarinnar Wikipedia, hefur hrint af stað þremur vefjum á tímaritsformi um stjórnmál, afþreyingu og staðbundin mál. Byggja tímaritin á sömu hugmyndum og alfræðiorðabókin vinsæla, þ.e. að notendur skrifi sjálfir allt efni sem birt er.

Lesendur fá þannig sjálfir allt vald ritstjórnar og geta þá skrifað, breytt og birt greinar um hugðarefni sín.

Wikia keypti á síðasta ári umræðuvefinn armchairgm.com, þar sem fjallað er um íþróttir, og hafa þar verið gerðar tilraunir með að veita notendum meira vald til að skrifa eigin efni og fjalla um það.

Í kjölfarið var ákveðið að opna þrjá nýja vefi í nafni Wikia, þar sem notendur stjórna öllu efni. Á entertainment.wikia.com eru birtar fréttir úr skemmtanaiðnaðinum, um kvikmyndir og sjónvarpsefni, og geta notendur jafnt skrifað fréttir, gagnrýni. Á politics.wikia.com er fjallað um stjórnmál, en á local.wikia.com gefst notendum kostur á að skrifa staðbundnar fréttir, sá vefur er reyndar bundinn við Bandaríkin, en geta notendur flett upp bæjum og borgum eftir nöfnum og póstnúmerum.

Wikia rekur nú þegar nokkrar vefsíður á uppflettiritasniði sem byggja á sömu hugmyndum og hafa rúmlega 400.000 greinar verið skrifaðar á vefi fyrirtækisins síðan það var stofnað árið 2004. Má þar nefna tónlistarvefinn music.wikia.com og ferðavefinn world.wikia.com.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka