Hvít-rússnesk stjórnvöld hafa hert eftirlit með netnotkun landsmanna og hafa skikkað eigendur netkaffihúsa til að halda skrár yfir þær vefsíður sem heimsóttar hafa verið og skila til öryggisþjónustu landsins.
Samkvæmt reglunum nýju verður netkaffihúsum bannað að veita viðskiptavinum sínum aðgang að tölvuleikjum og vefsíðum sem innihalda efni sem talist getur ofbeldisfullt eða klámfengið. Ennfremur verður svo héðan í frá netnotendum meinaður aðgangur að öllu efni sem stjórnvöld skilgreina sem „ólöglegt”.
Gagnrýni á forseta landsins, Alexander Lúkasjénkó, og aðra hátt setta embættismenn er samkvæmt landslögum ólögleg.
Netnotkun í Hvíta-Rússlandi er þegar miklum takmörkunum háð. Landsmenn verða að framvísa skilríkjum þegar þeir heimsækja netkaffihús og er netaðgangi skrifstofa og heimila stjórnað með ríkiseinokun.