Andúð á sifjaspellum ekki einungis samfélagsleg

Daryl Sabara og Alexa Vega sem njósnasystkinin Juni og Carmen …
Daryl Sabara og Alexa Vega sem njósnasystkinin Juni og Carmen Cortez.

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar benda til þess að það séu ekki síður líkamlegir og andlegir þættir en samfélagslegir sem koma í veg fyrir að fólk laðist kynferðislega að foreldrum sínum og systkinum. Samkvæmt rannsókninni, sem unnin var í samvinnu háskólanna á Hawaii og í Santa Barbara í Bandaríkjunum, laðast fólk síður að systkinum sínum eð öðrum jafnvel þótt þau viti ekki af skyldleika sínum. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

„Við lögðum upp í leit að kerfi sem næmi skyldleika enda gefa nokkrar mikilvægustu kenningar þróunarlíffræði ráð fyrir því að slíkt sé til,” segir Leda Cosmides, sem stóð að rannsókninni ásamt John Tooby, samstarfsmanni sínum í Santa Barbara og Debru Lieberman á Hawaii. „Niðurstöðurnar sýna að fólk nemur greinilega ákveðin merki, sem í samfélögum safnara, eru álitin merki þess að fólk sé náskylt. Og þetta virkar hvort sem fólk gerir sér grein fyrir skyldleika sínum eða ekki.”

Fram til þessa hefur verið talið að andúð fólks á sifjaspellum væri fyrst og fremst sprottin af samfélagslegri innprentun og að hún myndist við það að systkini alist upp saman frá blautu barnsbeini. Rannsóknin, sem unnin var með aðstoð 600 sjálfboðaliða, sýndi hins vegar fram á að enginn munur er á afstöðu systkina, sem alist hafa upp saman og þeirra sem aldrei hafa búið saman, hálfsystkinum og alsystkinum og systkinum sem fædd eru með stuttu millibili og þeim sem fædd eru með allt að 20 ára millibili.

Niðurstöðurnar ganga þvert á hugmyndir Sigmund Freud, sem m.a. hélt því fram að fólk laðaðist sjálfkrafa að nánustu ættingjum sínum og að menning og samfélag þurfi því að beita einstaklinga miklum þrýstingi til að bæla þessar tilhneigingar.

Segir Cosmides að Freud hafi hugsanlega byggt kenningar sínar á eign upplifunum sem hafi markast af því að hann hafi haft barnfóstru sem m.a. hafði hann á brjósti. Hann hafi því hugsanlega tengst þeirri konu þeim líkamlegum böndum sem yfirleitt séu á milli mæðra og barna þeirra og því borið annars konar tilfinningar til móður sinnar. „Þegar þannig stendur á heldur heilinn að önnur kona sé móðirin en sú sem meðbitundin veit að er móðirin og því er vel hugsanlegt að viðkomandi heillist á annan hátt af móður sinni.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert