Stúlkubarn, sem móðirin gekk aðeins með í tæpar 22 vikur, er sagt braggast vel. Læknar á Flórída í Bandaríkjunum, þar sem barnið fæddist, segja að þetta sé stysta meðganga sem þeir þekki til þar sem barnið lifir. Stúlkan vó aðeins 284 grömm og var 24,13 sentimetra löng þegar hún fæddist 10. október. Venjuleg meðganga er 37-40 vikur.
Stúlkan heitir Amillia Sonja Taylor og gera læknar ráð fyrir því að hún fái að fara heim í dag. Hún átti við öndunarerfiðleika að stríða og fékk smávægilega heilablæðingu og meltingartruflanir en virðist ætla að spjara sig. „Við vorum ekkert of bjartsýn en hún hefur braggast," sagði William Smalling, einn af læknunum sem annast hafa barnið.
Amillia hefur verið í súrefniskassa frá fæðingu og mun fá súrefnisgjöf eitthvað áfram. Þá verður fylgst með öndun hennar næstu mánuði.
Amillia er fyrsta barn Eddie og Sonju Taylor í bænum Homestead. Hún er glasabarn og því er hægt að reikna lengd meðgöngunnar nákvæmlega. Stúlkan er nú 65 sentimetra löng og vegur 2 kíló.
„Það var erfitt að ímynda sér að hún næði þetta langt. En nú er hún farin að líta út eins og venjulegt barn," sagði Sonja Taylor.
Háskólinn í Iowa, sem safnað hefur gögnum um fyrirbura, segir að ekki sé vitað til að neitt barn, sem gengið var með í innan við 23 vikur, hafi lifað.