Vöxtur netsins liggur í fjölgun farsímanotenda

Vinton Cerf, einn af svokölluðum feðrum Netsins.
Vinton Cerf, einn af svokölluðum feðrum Netsins. AP

Vinton G. Cerf, aðstoðarforstjóri Google og einn þeirra sem kallaður hefur verið faðir netsins, sagði á ráðstefnu í bækistöðvum Google á í Bangalore á Indlandi í dag, að vöxtur netsins muni að miklu leyti gerast á farsímamarkaði næstu árin.

Cerf benti í ræðu sinni á að netnotendum hefði fjölgað gífurlega síðustu tíu ár, en þeir voru 50 milljónir ári 1997, en eru taldir um 1,1 milljarðar nú.

Þá sagði Cerf að þetta þýddi engu að síður að 5,5 milljarðar manna notuðu því ekki netið, en að það fólk myndi ekki nýta sér netið fyrr en kostnaður við að nota og koma á tækninni minnkaði.

Farsímanotendur telja nú 2,5 milljarða og fjölgar ört í þróunarlöndum á borð við Kína og Indland, en þar í landi fjölgar farsímanotendum nú um sjö milljónir á mánuði.

Cerf, sem er ábyrgur fyrir því að kanna nýjar leiðir og tækni á netinu hjá Google, benti svo á að símar væru frekar í stakk búnir en áður til að tengjast netinu, verð fyrir slíka þjónustu lækkaði sífellt vegna samkeppni og að þegar væri í boði mikið af hugbúnaði fyrir farsíma.

Þetta muni þýða mun fleiri notendur netsins á næstunni, sem eingöngu hafa þá aðgang að því um farsíma sína.

Google býður farsímanotendum nú þegar hugbúnað til að sækja tölvupóst um Gmail frípóstþjónustu sína beint í farsíma og heldur úti einfölduðum útgáfum af Google leitarvélinni og Google News fréttahirðinum sem hægt er að skoða á smátækjum á borð við farsíma.

Aðeins um 40 milljónir Indverja nota netið nú, eða um 3,5% landsmanna. Segir Cerf að ætlunin sé að einblína á staðbundna þjónustu, tungumál og menningu í landinu til að auka netnotkun.

Cerf er fæddur árið 1943, hann hannaði ásamt Robert Kahn á áttunda áratug síðustu aldar innviði netsins, en þeir störfuðu þá hjá ARPA, rannsóknarstofnun bandaríska varnamálaráðuneytisins. Cerf og Kahn hlutu árið 2005 frelsisorðu forseta Bandaríkjanna, en það er æðsta viðurkenning sem veitt er óbreyttum borgurum þar í landi. Sama ár hóf hann störf hjá Google.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert