Hafmynd hf. sem þróar og hannar dvergkafbáta hlaut Nýsköpunarverðlaun Rannís og Útflutningsráðs í ár. Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenti verðlaunin á Nýsköpunarþingi í morgun.
Nýsköpunarverðlaunin eru veitt fyrirtækjum sem þykja hafa skarað fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og vísindastarfi og náð hafa árangri á markaði. Lykilorðin eru rannsóknir og vísindastarf, nýsköpun í vöru og þjónustu og árangur á markaði.
Nýverið voru tveir dvergkafbátar sem Hafmynd þróaði seldir til tveggja vinveittra þjóða fyrir um 100 milljónir króna. Hafmynd vonast til þess að selja 5–8 slíka dvergkafbáta á þessu ári, en fyrirtækið hlaut nýlega alþjóðlega viðurkenningu fyrir byltingarkennda lausn í öryggismálum ríkja.
Dvergkafbáturinn, sem nefnist Gavia, er hannaður sem alhliða mælinga- og rannsóknartæki og er hann notaður við umhverfisrannsóknir, sjómælingar, eftirlit með mannvirkjum og öryggiseftirlit. Kafbáturinn er sjálfskiptur og útbúinn myndavélum og sónartæki.
Um tíu ár eru liðin frá því verkefnið hófst og á kafbáturinn uppruna sinn að rekja til umhverfisrannsókna í hafi.
Rannís og Útflutningsráð veittu sín fyrstu nýsköpunarverðlaun árið 1994 þegar Vaki hf. fékk þau. Á þeim tíu árum sem liðin eru hafa nokkur fyrirtæki fengið nýsköpunarverðlaunin. Sem dæmi má nefna fyrirtæki eins og Hugvit, Íslenska erfðagreiningu, Flögu, Bláa lónið, Stofnfisk, CCP og Stjörnu-Odda.
Hafmynd var stofnuð árið 1999 en undirbúningur fyrirtækisins hófst nokkrum árum áður. Stofnendur voru Hjalti Harðarson, verkfræðingur og Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands. Síðar bættist Hafrannsóknastofnunin í hópinn ásamt nokkrum fyrirtækjum og einstaklingum sem lagt hafa hlutafé til rekstrarins og skal þar sérstaklega nefna Össur Kristinsson, samkvæmt upplýsingum frá Rannís.