Sérfræðingur segir fullyrðingar um Jesú í nýrri heimildamynd tómt bull

Á fréttamannafundinum í New York í dag. Kisturnar eru sagðar …
Á fréttamannafundinum í New York í dag. Kisturnar eru sagðar hafa fundist í grafhvelfingunni í Jerúsalem. Reuters

Virtur ísraelskur fornleifafræðingur sagði í dag að það væri tómt bull sem fram komi í nýrri heimildarmynd eftir James Cameron að hinn raunverulegi greftrunarstaður Jesú sé fundinn og að frelsarinn hafi átt son.

Myndin heitir The Lost Tomb of Jesus og verður sýnd á Discovery-sjónvarpsstöðinni á sunnudaginn. Cameron gerði hana ásamt ísraelska kvikmyndagerðarmanninum Simcha Jacobovici og kynntu þeir myndina á fréttamannfundi í New York í dag.

Í myndinni er sagt frá grafhýsi sem fannst í Talpiot-hverfinu í Jerúsalem 1980, en í henni voru tíu kistur. Á sumar þeirra voru skrifuð hebresku nöfnin Yeshu Ben Yossef (Jesús sonur Jósefs), Yehuda Bar Yeshu (Júda sonur Jesú), Marta og Myriam (María), sem allt eru vel þekkt nöfn úr Nýja testamentinu.

Ísraelski fornleifafræðingurinn, prófessor Amos Kloner, sem kannaði grafhýsið fyrir rúmum tíu árum og sagði það vera hvílustað efnaðrar gyðingafjölskyldu, fullyrðir að ekkert bendi til að þarna sé um að ræða gröf Jesú.

„Ég fullyrði að þarna sé um að ræða venjulega grafhvelfingu frá fyrstu öld fyrir Krist. Hver getur fullyrt að [þessi] „María“ sé Magðalena, og Júda sé sonur Jesú? Það er ekki hægt að sanna þetta. Þetta voru mjög vinsæl og algeng nöfn á fyrstu öld fyrir Krist,“ segir Kloner. Í 900 grafhvelfingum sem fundist hafi í grennd við gömlu borgina í Jerúsalem frá sama tímabili hafi nafnið Jesú, eða Yeshu, fundist 71 sinni, og einnig hafi fundist „Jesú sonur Jósefs“.

Discovery News segir að nýjar vísindalegar vísbendingar, þ.á m. DNA-greining sem gerð hafi verið á einni virtustu sameindaerfðafræðistofnun heims, séu um að gröfin kunni að hafa geymt jarðneskar leyfar Jesú og fjölskyldu hans.

Kloner segir þetta fáránlega fullyrðingu og ógerlegt að sanna. „Það þyrfti að gera DNA-rannsókn til að athuga hvort erfðaefnið í beinunum sem fundust í hellinum, sem sagt er að séu úr syni Jesú, passi við erfðaefnið í Guði!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka