YouTube ætlar að loka á höfundarréttarvarið efni

YouTube er einn mest sótti vefur heims
YouTube er einn mest sótti vefur heims Reuters

Google hefur í hyggju að beita síum til að koma í veg fyrir að notendur vefsvæðisins YouTube, sem er í eigu Google, hlaði inn myndbrotum sem vernduð- eru með höfundarrétti. Eric Schmidt, forstjóri Google, sagði í viðtali við Reuters fréttastofuna að fyrirtækinu sé annt um að standa vörð um hag höfundarréttindaeigenda og að á næstunni verði tekin í gagnið tækni sem notuð verði til að finna og loka á efni sem ekki er leyfilegt að birta.

Schmidt vildi ekki nefna nákvæma dagsetningu, en sagði einnig að málið sé síður en svo afgreitt þótt slík tækni verði tekin í notkun heldur sé óumflýjanlega um að ræða endalausa baráttu og líkti Schmidt henni við eltingarleik kattar og músar.

Viacom krafðist þess fyrr í mánuðinum að YouTube fjarlægði rúmlega 100.000 myndbrot af vefsíðu sinni eftir að samningaviðræðum var slitið um birtingu efnis í eigu fyrirtækisins.

YouTube hefur sagt að ekki sé hægt að fjarlægja efnið á sjálfvirkan hátt heldur þurfi efniseigendur að starfa með fyrirtækinu að því að vinsa úr höfundarréttarvarið efni.

Þá er mjög snúið að greiða úr þeim flækjum sem upp geta komið, t.a.m. geta brot úr sjónvarpsþáttum innihaldið tónlist í eigu þriðja aðila, sem þá þarf að semja sérstaklega við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert