Viktoríuríki í Ástralíu hefur bannað notkun vefsvæðisins YouTube í skólum til að stöðva birtingu á fautaskap og einelti eftir að drengjahópur í útjaðri borgarinnar Melbourne birti myndskeið þar sem þeir lítillækkuðu 17 ára stúlku.
YouTube verður nú sett á lista yfir vefi sem ekki er hægt að skoða í skólum í ríkinu og segja talsmenn ríkisstjórnarinar í Viktoríu að einelti hafi ekki verið liðið hingað til og að stefnan nái til netsins líka.
Nýleg könnun sem háskólinn í Mebourne gerði benti til þess að um þriðjungur unglinga á aldrinum 12 til 17 ára hafi lent í einhvers konar einelti tengdu netinu og að stúlkur séu 2,5 sinnum líklegri til að lenda í slíku en drengir.