BBC og YouTube hefja samstarf

BBC er þegar komið á lista YouTube yfir samstarfsaðila
BBC er þegar komið á lista YouTube yfir samstarfsaðila

BBC hefur gert samning við vefinn YouTube um að birta fréttir og afþreyingarefni á YouTube frá og með deginum í dag. BBC fær hlutdeild í hagnaði af auglýsingum á þeim síðum sem notendur skoða, en meginmarkmiðið mun þó vera að fjölga áhorfendum í Bretlandi og erlendis og leiða um leið notendur að eigin vefsíðu stofnunarinnar. Um 70 milljónir notenda heimsækja YouTube á mánuði hverjum.

Samningurinn felur í sér að stofnaðar verða þrjár rásir, tvær sem tengjast afþreyingu og fróðleik og eru þær báðar komnar á vefinn, en á þeirri þriðju verða sýndar fréttir. Á annarri afþreyingarrásinni verður efni sem ætlað er að kynna dagskrá BBC og bæta við hana. Hinni er svo ætlað að sýna brot úr eldra efni í safni BBC á borð við þættina Top Gear og náttúrulífsþætti sjónvarpsmannsins kunna, David Attenborough.

Á afþreyingarrásunum verður ekki auglýst í myndbrotunum sjálfum, heldur á auglýsingaborðum á síðunni sjálfri líkt og tíðkast á YouTube og fleiri vefjum. Hætt er við því að þetta verði umdeilt þar sem Bretar geta skoðað efnið á YouTube, en mikil umræða hefur verið undanfarin misseri um hvort BBC, sem er í eigu almennings, eigi að auglýsa á vefsíðum sínum til að fjármagna mikla aðsókn erlendis frá.

Fréttarásin verður öllu stærri í sniðum, en hún verður opnuð síðar á árinu. Send verða út um 30 fréttamyndskeið á dag, og verður rásin fjármögnuð með auglýsingum á svipaðan hátt og BBC hefur áður gert með samningum við Yahoo og Real Networks.

Á vefsíðu stofnunarinnar er í dag haft eftir Mark Thompson, forstjóra BBC, að tilgangurinn sé ekki að hefja stórfellda dreifingu á efni um vefsíðuna vinsælu, heldur sé fyrst og fremst litið á You Tube sem kynningartæki.

Bandarískir fjölmiðlarisar á borð við CBS, NBC og Fox hafa áður gert viðlíka samninga við YouTube. Vinsældir vefsins liggja þó í því að notendur geta hlaðið inn eigin efni öðrum til skemmtunar.

Vefurinn hefur að undanförnu staðið í talsverðum lagadeilum við eigendur höfundarréttarvarins efnis, einkum eftir að netfyrirtækið Google keypti fyrirtækið, en höfundarrétthafa hafa gangrýnt að notendur hlaði inn efni sem þeir hafa ekki gert sjálfir, heldur afritað úr sjónvarpsupptökum eða kvikmyndum og er varið með höfundarrétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert