Vel heppnuð flugferð vísindamanna inn að lægðarmiðju

Sól og blíða í lægðarmiðju.
Sól og blíða í lægðarmiðju.

Flugferð sem farin var í gær til að rannsaka djúpa lægð sem verið hefur að hreiðra um sig á sunnanverðu Grænlandshafi var „geysivel heppnuð og spennandi“, að sögn Jóns Egils Kristjánssonar, eins af þremur íslenskum vísindamönnum sem stjórnuðu rannsóknarfluginu. Auk hans stjórnuðu Guðrún Nína Petersen og Haraldur Ólafsson rannsóknni, sem og bandaríski vísindamaðurinn Melvyn Shapiro.

Jón segir að þau hafi áður sýnt fram á með aðstoð veðurspárlíkana að hegðun lægða sem þessarar á Norður-Atlantshafi sé undir miklum áhrifum frá fjalllendi á Grænlandi. Tilgangur flugsins í gær hafi verið að kanna þessi áhrif betur og öðlast skilning á því hvers vegna oft sé mikið ósamræmi í líkanareikningum á þessu svæði.

Jón Egill segir svo frá flugferðinni í gær:

„Til að fá sem nákvæmastar upplýsingar um eðli lægðarinnar var mjög mikilvægt að fljúga inn í sjálfa lægðarmiðjuna og ná síðan þverskurðum í gegnum úrkomusvæðið sem fer í sveig í kringum lægðarmiðjuna. Reiknilíkönum bresku, bandarísku og norrænu veðurstofanna bar ekki saman um hvar lægðina væri að finna, svo þetta var hægara sagt en gert. Gervitunglamyndir voru einnig skoðaðar, en þar sem lægðin var á stöðugri hreyfingu gáfu þær heldur ekki tæmandi upplýsingar.

Fyrst var flogið í 7.500 metra hæð í krossmunstri í gegnum lægðina. Alls var sextán sondum sleppt, og mældu þær ástand andrúmsloftsins á leiðinni niður. Að þessu loknu var aftur flogið í krossmunstri í gegnum lægðina, en nú í 1.500 metra hæð, til að rannsaka innviði hennar, þ.e.a.s. skýjakerfi og vindafar. Þad gekk töluvert mikið á í þessu flugi, því í vindstrengnum milli lægðarinnar og Grænlands var vindhraðinn um 30-35 metrar á sekúndu, og auk þess var mikil snjókoma og ísing. Að lokum var stefnt þvert á vindinn þar til við fundum lægðarmiðjuna, en þar var nánast logn, sól og blíða, eins og myndin gefur til kynna.

Á morgun er gert ráð fyrir að mjög djúp lægð komi upp að suðausturlandi, og valdi hvassviðri um allt land. Margt bendir til að leifarnar af lægðinni sem við rannsökuðum í gær hafi mikla þýðingu fyrir dýpkun nýju lægðarinnar. Þetta munum við rannsaka nánar á næstu mánuðum. Líklegt er ad mælingar okkar í gær hafi leitt til verulega betri reikninga á nýju lægðinni enn ella, því mælingarnar fara beint inn á alþjóðlega veðurathugananetið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert