Hópur vísindamanna hefur lagt af stað í sjóferð til að komast að því hvers vegna stórt stykki úr jarðskorpunni, sem liggur djúpt á hafsbotni Atlantshafsins, er hvergi að finna. Þetta er vísindamönnunum mikil ráðgáta, og í raun er þetta þvert á allar þær kenningar sem menn hafa um það hvernig jörðin virkar.
Hópurinn, sem telur yfir 20 menn, ætlar að rannsaka svæði sem er á um þriggja til fjögurra km dýpi. Þar glittir í sjálfan möttulinn, en alla jafna þekur um kílómeters þykkt lag af jarðskorpu möttulinn.
Sérfræðingar lýsa holunni sem „opnu sári“ á sjávarbotninum og hefur hún valdið vísindamönnum miklum heilabrotum undanfarin fimm ár, sem er sá tími sem vitað hefur verið af henni. Holan er þvert á núverandi flekakenningar manna.
„Við vitum svo lítið um þetta,“ segir Bramley Murton, sem starfar sem vísindamaður við bresku haffræðimiðstöðina í Southampton.
„Þetta ögrar í raun hugmyndum okkar um það hvernig yfirborð jarðarinnar lítur út undir öldunum,“ sagði hann í samtali við Reuters-fréttastofuna.
Sjávarhryggir í miðju hafi eru staðir þar sem ný jarðskorpa undir sjávarborðinu myndast en þar lekur glóandi heitt hraun eftir sjávarbotninum.
Það sem vísindamennirnir vilja komast að er hvort jarðskorpan hafi rifnað af einhverskonar meiriháttar jarðfræðilegum orsökum eða hvort jarðskorpan hafi einfaldlega aldrei myndast á umræddum stað.