Lítið gagn í kaffibollanum

Morgunbollinn er sagður gera það gagn eitt að slá á …
Morgunbollinn er sagður gera það gagn eitt að slá á fráhvarfseinkenni mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Kaffibollinn er víst ekki sá bjargvættur snemma á morgnana, sem margir telja hann vera. Vísindamenn við Bristol háskólann í Bretlandi segja nú eftir ítarlegar rannsóknir á málinu að sú orka sem kaffidrykkjufólk fær við það að drekka kaffið sitt á morgnanna, skýrist af því að líkaminn losni þar með við syfjutilfinningu sem tengist fráhvarfseinkennum. Líkaminn sé einfaldlega að komast í eðlilegt horf. Sagt er frá þessu á fréttavef BBC.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á ráðstefnu bresku næringarstofnunarinnar og sýndu þær að fólk sem ekki drekkur kaffi dags daglega verði vissulega fyrir örvandi áhrifum af kaffibollanum, en að þeir sem daglega fái sér kaffibolla verði fyrir litlum áhrifum.

Segir í niðurstöðunum að kaffidrykkjufólk sé farið að finna fyrir vægum fráhvarfseinkennum eftir að hafa ekki fengið neitt koffín yfir nóttina, því sé það silalegt og finni fyrir svefndrunga þegar það vakni, en sú líðan hverfur eðlilega eins og dögg fyrir sólu þegar fráhverfseinkennunum er eytt.

Bresku kaffisamtökin (British Coffee Association) segja niðurstöður vísindamannanna ekki eiga við nein rök að styðjast og að kaffidrykkjufólk sé, líkt og þau hafa hingað til talið, árvakrara en ella.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka