Í Suður-Kóreu er nú unnið að samningu siðareglna sem eiga koma í veg fyrir að fólk misnoti vélmenni og að vélmenni misnoti menn eða gögn þeirra. Sérskipaðri siðanefnd er ætlað að setja notendum og framleiðendum vélmenna viðmiðunarreglur fyrir lok þessa árs. Fimm menn sitja í nefndinni en á meðal þeirra eru framtíðarspámaður og framtíðarsögurithöfundur. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Ríkisstjórnin ætlar að setja siðareglur varðandi hlutverk og starfsemi vélmenna þar sem gengið er út frá því að vélmenni muni öðlast umfalsverða greind í náinni framtíð,” segir talsmaður viðskipta-, iðnaðar- og orkumálaráðuneyti landsins.
Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa skilgreint vélmenni sem mikilvægan þátt í hagkerfi landsins og verja þau miklum fjármunum til rannsókna og þróunar vélmenna.
Suður-Kórea er eitt tæknivæddasta ríki heims og standa nýjungar í tölvu- og samskiptatækni íbúum hennar yfirleitt mun fyrr til boða en íbúum Vesturlanda. Það er yfirlýst stefna yfirvalda þar í landi að vélmenni verði farin að framkvæma skurðaðgerðir árið 2018 og gert er ráð fyrir að vélmenni verði á hverju suður-kóresku heimili á milli 2015 og 2020. „Hugsið ykkur ef karlar fara að koma fram við vélmennin eind og þau væru eiginkonur þeirra, segir Park Hye-Young, fulltrúi ráðuneytisins í nefndinni. „Aðrir geta orðið háðir því að vera í samskiptum við þá líkt og margir sem nota Netið verða háðir tölvuheiminum.”
Þá segir hún hugsanlegt að þrjár meginreglur sem settar voru fram í smásögu Isaac Asimov Runaround frá árinu 1942 verði lagðar til grundvallar nýju siðareglunum en þær miða að því að tryggja völd mannsins yfir vélmennunum, tryggja öryggi gagna sem vélmenni komast yfir og koma í veg fyrir ólöglega notkun þeirra.
Á síðasta ári birtu bresk yfirvöld skýrslu þar sem rökum val leitt að því að innan fimmtíu ára myndu vélmenni fara fram á sambærileg réttindi við þau réttindi sem menn njóta.