Embættismenn Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA, segja hana geta fundið nær öll smástirni, sem kunni að rekast á jörðina með hörmulegum afleiðingum – en geti ekki gert það vegna fjárskorts.
Áætlað er að það kosti um milljarð dollara, sem svarar tæpum 70 milljörðum króna, að finna að minnsta kosti 90% af þeim 20.000 smástirnum eða halastjörnum sem jörðinni getur stafað hætta af.
Bandaríkjaþing fól NASA árið 2005 að semja áætlun um að finna flest smástirnanna og tillögur um aðgerðir til að afstýra hugsanlegum árekstri. „Við vitum hvað við þurfum að gera; við höfum bara ekki peningana," sagði Simon Worden, framkvæmdastjóri Ames-rannsóknarmiðstöðvar NASA.
Er hér átt við smástirni sem eru stærri en 140 metrar að þvermáli. Þau eru hættuleg þótt þau rekist ekki á jörðina vegna þess að ef þau springa nálægt jörðinni geta höggbylgjurnar valdið gífurlegu tjóni á stóru landsvæði.
NASA hefur hafið leit að smástirnum sem eru stærri en 1.005 metrar að þvermáli. Búist er við að henni ljúki fyrir lok næsta árs.