Sænsk stjórnvöld hafa kynnt hugmyndir um að leyniþjónustu landsins verði leyft að fylgjast með tölvupóstsamskiptum og símtölum milli Svíþjóðar og annarra landa án dómsúrskurðar. Ríkisstjórnin heldur því fram að þetta muni aðeins eiga við um brot af fjarskiptum en strax hafa heyrst gagnrýnisraddir um að of langt sé gengið með reglunum fyrirhuguðu.
Lögggjöfinni svipar til eftirlitskerfis sem sett var á í Bandaríkjunum árið 2001 vegna eftirlits með þeim sem grunaðir voru um tengsl við hryðjuverkahópa. Það kerfi var mjög gagnrýnt m.a. af blaðamönnum, fræðimönnum og lögfræðingum sem sögðu að þetta erfiðaði störf þeirra.
Samkvæmt sænsku tillögunni, sem þarf samþykki þingsins, verður öryggis- og fjarskiptastofnun landsins leyft að leita að upplýsingum með svokölluðum gagnagreftri (data mining), þar sem leitað er með síum að ákveðnum lykilorðum.
Enn sem komið er má aðeins leita með þessum hætti með dómsúrkurði ef lögregla hefur grun um að verið sé að skipuleggja glæpi.
Ekki verður leitað að gögnum innan Svíþjóðar heldur aðeins í gögnum sem fara yfir landamæri landsins.
Segir Mikael Odenberg, varnamálaráðherra Svíþjóðar, að tilgangurinn sé sá að vernda landið og borgara þess.
Gagnrýnendur tillögunnar segja þó að ómögulegt sé að tryggja að samskipti Svía verði ekki skoðuð þar sem tölvupóstsamskipti t.a.m. fari oft í gegn um erlenda netþjóna og gætu þannig endað í höndum sænska hersins.
Hefur aðferðinni verið líkt við það að veiða með neti í stað önguls og hafa ýmsir aðilar, þ.á.m. sænska öryggislögreglan og stjórnarandstaðan lýst sig andvíga tillögunni á þeim forsendum að verið sé að brjóta á rétti fólks til einkalífs.