Flogið inn í ofsaveður

Veðurfræðingar við mælitæki um borð.
Veðurfræðingar við mælitæki um borð.

Hópur íslenskra og erlendra vísindamanna hefur undanfarið rannsakað vindrastir við Grænland og Ísland, og hafa í þeim tilgangi verið á flugi við Grænlandi í miklum illviðrum.

Þessum rannsóknaferðum lýkur á morgun, en fyrsta ferðin var farin 21. febrúar þegar flogið var í 100 feta hæð, eða 33 metrum, inn í vindstreng við suðurodda Grænlands þar sem vindhraði fór í 33 metra á sekúndu.

Guðrún Nína Petersen, doktor í veðurfræði við Háskólann í Austur-Anglíu, var þessari fyrstu ferð og segir hún að vindstrengurinn sem um ræðir myndist þegar austanvindur skelli á Grænlandi en komist ekki yfir landið þar sem það sé þarna um 2.000 metra hátt.

Guðrún segir að ekki sé til mikið af mælingum á þessum vinstreng. Gervitunglamælingar hafi verið gerðar á honum, en þær veiti til dæmis ekki upplýsingar um hámarksvindhraða þar sem þær mæli vindhraða við yfirborð, en viðnám þess dragi úr vindinum. Engar upplýsingar séu því fyrirliggjandi um breytingu á vindinum eftir hæð eða hver hámarksvindhraðinn í strengnum sé.

Í flugferðunum voru veðurstöðvar, líkt og þær sem oft séu sendar upp í loftið með loftbelgjum, látnar falla og mældu þær í fallinu hita, vind og raka og sendu þær upplýsingar aftur til flugvélarinnar.

Í fyrstu flugferðinni voru auk Guðrúnar Ian Renfrew, doktor í veðurfræði við Háskólann í Austur-Anglíu, en hann stjórnar verkefninu, og Stephen Outten, sem er doktorsnemi við sama skóla. Einnig voru í ferðinni Kent Moore, prófessor við Háskólann í Toronto, ásamt Carling Hay, doktorsnema við sama skóla, og Tadayasu Oghiushi, sem er nýdoktor við skólann.

Að verkefninu starfa vísindamenn frá Íslandi, Bretlandi, Kanada, Noregi og Bandaríkjunum. Auk Guðrúnar vinna við það íslensku vísindamennirnir Jón Egill Kristjánsson, prófessor við Óslóarháskóla, og Haraldur Ólafsson veðurfræðingur.

Rannsóknirnar eru liður í Heimskautaárinu svonefnda, alþjóðlegu og viðamiklu vísindaverkefni sem hófst formlega í síðasta mánuði og mun standa í tvö ár.

Flogið var á lítilli fjögurra hreyfla þotu af gerðinni British Aerospace, og segir Guðrún að það hafi að vissu leyti verið óþægilegt að fljúga í þessum slæmu veðurskilyrðum, en það sé ekkert hættulegt. Algjört skilyrði fyrir því að þetta sé hægt sé að hafa reynda og góða flugmenn sem maður treysti fullkomlega.

Vefur verkefnisins

Flogið var í aðeins 33 metra hæð yfir hvítfextum öldum.
Flogið var í aðeins 33 metra hæð yfir hvítfextum öldum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert