Tæknimálin eru í ólestri á hátæknisýningunni Tækni og vit 2007 í íþróttahöllinni Fífunni í Kópavogi. Sýnendur sem leigja bása á sýningunni hafa ekki getað tengst þráðlausa netinu og hafa þurft að bjarga sér með gömlu snúrunum. „Það hafa verið vissir hnökrar á netsambandinu, þjónustuaðilinn sem sér sýningunni fyrir þráðlausa netinu hefur eitthvað klikkað í sínum útreikningum," sagði Kristinn Jón Arnarsson upplýsingafulltrúi sýningarinnar í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Þetta kom í ljós í gærkvöldi þegar sýningin opnaði og allar tölvurnar í sýningarsalnum reyndu að komast á netið. Síminn sér um netþjónustuna fyrir sýninguna og er sjálfur með bás á sýningunni en ekki hefur náðst í upplýsingafulltrúa Símans.
Flestir sýnendur sem eru háðir því að hafa aðgang að netinu munu hafa bjargað sér um nettengingu með kapli. „Mér skilst að símamennirnir hafi verið að hamast í þessu síðan í gær en eitthvað gengið illa," sagði Kristinn Jón að lokum.